• Ísland í fallsæti

Ísland í fallsæti?

4.3.2008

Ský stóð fyrir hádegisverðarfundi um rafræna opinbera þjónustu á Grand Hótel í dag.

Á fundinum kynnti Eggert Ólafsson, MPA, mælikvarða sem notaðir eru til að mæla rafræna, opinbera þjónustu í fjölþjóðlegum samanburðarkönnunum og hver staða Íslands er innan þessar kannanna.

Í erindi sínu Rafræn opinber þjónusta - matsaðferðir og staða Íslands komst Eggert að því að Ísland væri ekki að standa sig nægilega vel þegar kemur að efri matsstigum sem fælu í sér málsmeðferð og lýðræði miðað við aðrar þjóðir. Nánari upplýsingar um þetta efni er að finna í lokaverkefni Eggerts í MPA-námi við Háskóla Íslands.

Álfheiður Eymarsdóttir, þjónustustjóri Reykjavíkurborgar, tók næst til máls og fjallaði um þjónustu stærsta sveitarfélagsins. Hún benti meðal annars á þau tækifæri og víðsjár sem geta legið í því að samþætta og sameina þjónustu margra opinberra aðila á einum vettvangi. Álfheiður benti einnig á þau tækifæri sem sköpuðust við almenna útbreiðslu rafrænna skilríkja, bæði til auðkenningar og undirskrifta. Í máli hennar kom fram að margir þjónustuþættir hjá Reykjavíkurborg biðu eftir rafrænum skilríkum og svo væri eflaust hjá fleirum.

Guðfinna S. Bjarnadóttir, alþingismaður og fulltrúi stefnumótunarnefndar ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið 2008-2011, tók næst til máls og fór yfir þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við samningu nýrrar stefnu ríkisstjórnarinnar fyrir upplýsingasamfélagið á Íslandi. Í máli hennar kom fram að markmið nýju stefnunnar sé að Ísland verði fremst meðal þjóða í rafrænni þjónustu og nýtingu upplýsingatækni. Hún benti á spjallborð á Island.is þar sem landsmenn geta tjáð sig um upplýsingatæknsamfélagið á Íslandi og lagt fram hugmyndir og spurningar.

Panel-umræður

Því næst fóru fram panel-umræður sem Bragi Leifur Hauksson frá Tryggingastofnun, Guðbjörg Sigurðardóttir frá forsætisráðuneytinu, Haraldur Bjarnason frá fjármálaráðuneytinu, Eggert Ólafsson frá Reykjavíkurborg, Guðfinna S. Bjarnadóttir alþingismaður og Álfheiður Eymarsdóttir frá Reykjavíkurborg tóku þátt í.

Í umræðum kom m.a. fram að hugmyndin um rafræna stjórnsýslu snérist eingöngu um bætta þjónustu en ekki um tækni og lausnir. Þá var kallað eftir markmiðasetningu sem gæti uppfyllt raunhæfar væntingar landsmanna og í því samhengi minnst á fíkniefnalaust Ísland árið 2000.

Fundarmönnum gafst færi á að gerast stofnfélagar faghóps hjá Ský um rafræna opinbera þjónustu sem mun hafa það að markmiði að stuðla að bættri rafrænni þjónustu á Íslandi.

Vottunarstöð rafrænna skilríkja

Fundarmönnum gefst einnig kostur á að sækja um ókeypis rafræn skilríki og lesara fyrir fundinn sem þeir fengu síðan afhent á fundinum gegn framvísun gildra persónuskilríkja. Áfram verður hægt að sækja um rafræn skilríki.

Vottunarstöð Auðkennis

Fundarstjóri var Indriði H. Þorláksson og voru ríflega hundrað manns á fundinum.