• Hafnarfjarðarbær

Undirbúningur rafrænna skilríkja gengur vel

25.2.2008

Á undanförnum mánuðum hafa stórir áfangar náðst í undirbúningi dreifingar rafrænna skilríkja á debetkortum.

Mikil vinna hefur verið lögð í að undirbúa alla þætti innleiðingarinnar sem best, ekki síst þann þátt sem snýr að þjónustu sem í boði verður hjá ýmsum aðilum.

Sveitarfélög og stofnanir hafa mörg lagt mikinn metnað í að bjóða sínum umbjóðenum upp á einfaldari og þægilegri leiðir til að nálgast þjónustu þá sem í boði er. Mörg sveitarfélög eru að undirbúa ýmsa þjónustuþætti með rafrænum hætti, sem sparar bæði tíma og fyrirhöfn í samskiptum við sveitarfélögin.

Eitt stórt sveitarfélag er að bætast við hópinn sem fyrir er. Hafnarfjarðarbær er að undirbúa upptöku rafrænna skilríkja á sínum þjónustuvef, en hann mun vera í uppfærslu þessa mánuðina. Nokkur sveitarfélög hafa nú þegar útfært innskráningu með rafrænum skilríkjum, eins og Reykjavíkurborg, Garðabær, Reykjanesbær, Seltjarnarnes svo einhver séu nefnd.

Þá er rétt að ítreka að margar stofnanir hins opinbera eru langt komnar með undirbúning á ýmiskonar þjónustu með rafrænum skilríkjum. Stefna ríkisins er að vera framarlega í alþjóðlegum samanburði í innleiðingu rafræns samfélags, en þar eru rafræn skilríki einn af lykilþáttum.

Bankar og sparisjóðir eru allir að verða tilbúnir í að virkja rafræn skilríki á debetkortum í sinni þjónustu, en þar verða á boðstólum ýmsir möguleikar sem ekki hafa verið færir fram til þessa í heimabönkum. Bankar og sparisjóðir munu kynna þessa þjónustu nánar þegar þar að kemur, en hún á örugglega eftir að koma viðskiptavinum þeirra að góðum notun.