• Rafræn skilríki í kortalesara

Ný debetkort eru rafræn skilríki

29.11.2007

Frétt af mbl.is 29. nóvember 2007

Dreifing nýrrar gerðar debetkorta sem innihalda örgjörva með rafrænum skilríkjum hefst fljótlega á næsta ári. Reiknað er með að ári síðar verði allir handhafar debetkorta komnir með nýju gerðina í hendur. Um er að ræða samstarfsverkefni fjármálaráðuneytisins, fyrir hönd ríkisins, og Auðkennis, fyrir hönd banka og sparisjóða.

Bergsveinn Þórarinsson, framkvæmdastjóri innleiðingar nýju kortanna, sagði þau gegna tvíþættu hlutverki. Annars vegar sem debetkort til notkunar í viðskiptum og hins vegar sem rafrænt skilríki til auðkenningar og undirritunar. Skilríkin verður hægt að nota til undirritunar samninga í gegnum netið, til að auðkenna sig inn á lokuð vefsvæði eins og heimabanka, þjónustusíður fyrirtækja og sveitarfélaga, menntastofnana o.fl. Þá er kortinu stungið í kortalesara sem tengdur er tölvunni og verður dreift með kortunum. Nýrri gerðir tölva eru margar með slíka lesara sem staðalbúnað.

Rafrænu skilríkin á nýju debetkortunum munu með tíð og tíma leysa auðkennislykla banka og sparisjóða af hólmi. Bergsveinn sagði að fjármálastofnanirnar væru að hefja útgáfu nýrra debetkorta með fjármálavirkni sem kennd er við EMV. Slíkar örflögur eru m.a. komnar á kreditkortin. Örflagan á debetkortunum er öflugri og getur því bæði geymt skilríkin sem og greiðsluvirkni debetkortsins. Hún er einnig öruggari en eldri gerðir og er mun örðugra að afrita upplýsingar af örgjörvum en segulröndum korta. Bergsveinn sagði að neytendur ættu ekki að bera neinn beinan kostnað af innleiðingu kortanna. Samstarf ríkisins við banka og sparisjóði tryggir að kortin nái mjög almennri dreifingu.

Nýju debetkortunum fylgja sérstakir kortalesarar. Einnig eru margar tölvugerðir með innbyggða kortalesara. Reiknað er með að ári síðar verði allir handhafar debetkorta komnir með nýju gerðina í hendur.

Á kynningarfundi í gær um nýju kortin kom m.a. fram að útgáfa rafrænna skilríkja hófst í Eistlandi árið 2002. Þau voru fyrst notuð þar í sveitarstjórnarkosningum 2005 og fyrstu rafrænu þingkosningarnar í heiminum fóru fram í Eistlandi fyrr á þessu ári.