• Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra og Heidi Grande Røys stjórnsýslu- og endurskipulagningarráðherra Noregs

Rafræn stjórnsýsla í lykilhlutverki í Evrópu

21.9.2007

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra, fer fyrir níu manna íslenskri sendinefnd sem nú situr ráðherraráðstefnu um rafræna stjórnsýslu í Lissabon.

Ráðstefnan fer fram dagana 19. - 21. september og ber yfirskriftina „Hvernig nýta má kosti rafrænnar stjórnsýslu“ (e. Reaping the Benefits of eGovernment) og er hún skipulögð af Evrópusambandinu undir forystu Portúgala. Fulltrúum aðildarríkja Evrópusambandsins var boðið til ráðstefnunnar ásamt fulltrúum EFTA-ríkja og þeirra ríkja sem sótt hafa um aðild að Evrópusambandinu.

Þetta er fjórða ráðherraráðstefnan um rafræna stjórnsýslu sem Evrópusambandið stendur fyrir frá árinu 2001 og einn helsti viðburðurinn sem Portúgalir sjá um í formennskutíð sinni. Um 1300 þátttakendur eru á ráðstefnunni, bæði fulltrúar hins opinbera og atvinnulífsins. Markmiðin með ráðstefnunni eru að fara yfir það helsta sem hefur áunnist í rafrænni stjórnsýslu, greiða götu áframhaldandi þróunar og marka stefnu fyrir næstu ár. Einnig verða afhent verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í rafrænni stjórnsýslu (e. eEurope eGovernment Awards) og eru 52 verkefni tilnefnd til verðlauna. Verkefnin eru kynnt á sýningu í tengslum við ráðstefnuna.

Á ráðstefnunni samþykktu ráðherrarnir yfirlýsingu sem ætlað er að fylgja eftir áætlun Evrópusambandsins fyrir upplýsingasamfélagið fram til ársins 2010. Í yfirlýsingunni kemur fram að rafræn stjórnsýsla gegnir stöðugt mikilvægara hlutverki í alþjóðlegu samhengi. Ný tækni og samfélagsþróun breyta samskiptum borgara og fyrirtækja við opinberar þjónustustofnanir og hafa áhrif á væntingar til þessara stofnana.

Samþykkt ráðherranna felur í sér eftirfarandi atriði:

1. Rafræn samskipti á milli landa

Efla á samvinnu á milli ríkja Evrópu, fyrst og fremst varðandi rafræn innkaup milli landa og gagnkvæma viðurkenningu á rafrænum skilríkjum.

2. Minni skriffinnska

Nota á rafræna stjórnsýslu til að einfalda samskipti hins opinbera við borgara og fyrirtæki í Evrópu. Ennfremur skal athygli beint að litlum og meðalstórum fyrirtækjum, sem eiga sérstaklega að njóta áhrifa af minni byrði og hagkvæmri opinberri þjónustu.

3. Rafræn stjórnsýsla fyrir alla

Tryggja þarf að allir íbúar hafi hag af rafrænni stjórnsýslu. Sérstaklega skal hugað að hópum sem þurfa á félagslegum stuðningi að halda og þeim sem nota ekki sjálfir beint upplýsingatæknina.

4. Gagnsæi og lýðræðisleg þátttaka

Nýta skal kosti upplýsinga- og samskiptatækni til að kanna nýjar leiðir til að auka þátttöku almennings í lýðræðislegum ákvörðunum og auka gagnsæi stjórnsýslunnar.

Ríkin munu leitast við að samtvinna þau markmið sem sett eru fram í yfirlýsingunni við eigin stefnur og áætlanir. Í lok ársins 2008 munu þau greina frá þeim árangri sem náðst hefur.

Sjá nánar um ráðstefnuna ráðherrayfirlýsinguna á vef hennar http://www.egov2007.gov.pt.