• Haraldur A. Bjarnason og Haraldur Sverrisson hafa haft veg og vanda að undirbúningi rafrænna skilríkja.

Frétt í Morgunblaðinu 5. mars um rafræn skilríki

5.3.2007

RAFRÆN skilríki leika lykilhlutverk í því að auka öryggi þeirra sem notfæra sér Netið. Þau eru nokkurs konar vegabréf í netheimum og leið til rafrænnar undirskriftar. Þetta segir Haraldur Sverrisson, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu.

Í stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið segir að stefna beri að því að notkun rafrænna skilríkja verði almenn og útbreidd svo unnt verði með öruggum hætti að bera kennsl á samskiptaaðila og skrifa rafrænt undir, eftir því sem við á. Fjármálaráðuneytinu var falin ábyrgð þessa verkefnis.

Segir Haraldur að fjármálaráðherra hafi unnið ötullega að því að gera rafræna stjórnsýslu og rafræn viðskipti að raunhæfum valkosti í íslensku þjóðfélagi.

Rafræn skilríki verður eitt af þeim málum sem verða tekin til umfjöllunar á upplýsingatæknidegi, svonefndum UT-degi, sem forsætis- og fjármálaráðuneyti standa að og haldinn verður næstkomandi fimmtudag. Haraldur segir að auk þeirra verði fjallað um island.is, rafræna þjónustuveitu, sem verið er að setja í loftið og forsætisráðuneytið hefur veg og vanda að. Þá verði kynnt verkefni fjármálaráðuneytisins sem snúi að rafrænum viðskiptum og rafrænum reikningum.

Haraldur hefur að undanförnu haft veg og vanda af undirbúningi rafrænna skilríkja fyrir hönd ráðuneytisins ásamt Haraldi A. Bjarnasyni, sérfræðingi í ráðuneytinu.

Samstarf við fjármálafyrirtæki

Að sögn Haraldar hefur fjármálaráðuneytið verið með tilraunaverkefni um rafræn skilríki í gangi í nokkur ár. Hann segir að nú séu skilríki meðal annars þegar notuð við skil á tollskýrslum, skattskýrslum endurskoðenda og við undirritun nýrra vegabréfa. Ráðuneytið hafi áhuga á því og telji nauðsynlegt að rafræn skilríki komist í almenna notkun hjá almenningi og fyrirtækjum.

"Fyrir um tveimur árum hóf ráðuneytið samstarf við Samband banka- og verðbréfafyrirtækja um dreifingu á rafrænum skilríkjum á debetkortum. Það samstarf er nú að bera ávöxt með samstarfssamningi, sem felur í sér að bankar og sparisjóðir munu hefja dreifingu á nýjum debetkortum með rafrænum skilríkjum næsta haust. Það hefur meðal annars þann ávinning í för með sér að auðvelda fólki og fyrirtækjum að nýta sér aðgengi að þjónustu á Netinu.

Notendanöfnum og lykilorðum mun fækka þar sem aðilar munu frekar nota skilríki í samskiptum. Það einfaldar mikið aðgengi að þjónustu á Netinu, hvort sem um er að ræða viðskipti, stjórnsýslu eða hvað annað. Auk þess mun þetta spara ófáar ferðir og drjúgan tíma, bjóði þjónustuaðilar upp á rafrænar undirskriftir samninga og umsókna í stað undirskriftar í eigin persónu."

Haraldur segir að almenn útbreiðsla rafrænna skilríkja muni greiða leið í samskiptum um Netið. Notendur geti á öruggan hátt auðkennt sig gagnvart öðrum og skrifað rafrænt undir skjöl og skuldbindingar. "Rafræn skilríki eru því lykillinn að rafrænu Íslandi og gerir einstaklingum kleift að fylgja málum rafrænt til enda, hvar sem þeir eru staddir," segir Haraldur.

Nýr upplýsingavefur

Á UT-daginn, 8. mars næstkomandi, mun fjármálaráðuneytið opna nýjan upplýsingavef um rafræn skilríki, skilriki.is. Á vefnum má nálgast upplýsingar um virkni skilríkjanna, hvernig þau koma handhöfum að notum og hvernig þeir sem bjóða fram þjónustu geta tengt sig hinum rafrænu skilríkjum.

"Fjármálaráðuneytið vill hvetja alla til að skoða þennan vef og kynna sér rafræn skilríki, sem mun án efa valda byltingu í öryggi í öllum rafrænum samskiptum og á ferðalögum um netheima," segir Haraldur að lokum.