• Auðkennislyklar verða senn úreltir

Örgjörvakort í stað auðkennislykla

17.7.2007

Tæplega ársgömlum auðkennislyklum verður hent þegar dreifing á örgjörvakortum hefst í haust.

Framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja segir það ekki verið mistök að koma lyklunum í gagnið. Nauðsynlegt hafi verið að girða fyrir innbrot í íslenska netbanka.

Upphaflega stóð til að dreifing auðkennislykla hæfist í fyrravor. Galli reyndist í fyrstu sendingu af lyklunum og því hófst dreifingin ekki fyrr en í byrjun þessa árs. En brátt verða lyklarnir úreltir því í haust fara bankarnir að afhenda fyrstu debetkortin sem eru með örgjörvum. Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, segir að dreifing kortanna muni taka allt að tvö ár. Byrjað verði á þeim kortum sem eru að falla úr gildi. Þá er stutt í að auðkennislyklanna verði ekki lengur þörf.

Guðjón segir öryggi rafrænna bankaviðskipta hafa aukist mjög mikið með auðkennislyklunum. Örgjörvinn sé þó enn öruggari. Alþjóðasamfélagið hefur knúið á um að örgjörvum verði komið á öll greiðslukort til að draga úr kortasvindli og fölsun segir Guðjón. Hann segist ekki geta nefnt kostnaðinn við að koma örgjörvum í öll debetkort en hann sé mikill töluvert meiri en við að koma auðkennislyklunum í gagnið.