• Fartölva búin kortalesara sem verður staðalbúnaður í framtíðinni, mynd Hörður

Rafræn skilríki í stað auðkennislykla

17.7.2007

Dreifing á rafrænum skilríkjum til auðkennis og rafrænna undirskrifta hefst í haust. Kortin munu með tímanum leysa af hólmi auðkennislyklana sem bankarnir dreifðu fyrr á þessu ári.

„Bankar og sparisjóðir byrja að dreifa kortunum til sinna viðskiptavina í haust. Þau koma í staðinn fyrir venjuleg debetkort þannig að það eru engin viðbótarkort sem fólk þarf að hafa. Bara debetkort með örgjörva," segir Haraldur Bjarna­son, sérfræðingur hjá fjármála­ráðuneytinu. Ráðuneytið vinnur að þróun skilríkjanna ásamt Auðkenni hf., sem er sérhæft fyrirtæki um öryggismál rafrænna viðskipta í eigu allra helstu fjármálastofnana landsins.

„Auðkennislyklarnir munu lifa einhvern tíma til viðbótar. Bankarnir hafa enn ekki ákveðið hvernig staðið verður að dreifingu; hvort allir fái kortin í einu eða bara við endurnýjun debetkorta," segir Logi Ragnarsson, framkvæmdatjóri Auðkennis hf.

Skilríkið verður lykill að vefsíðum eins og netbanka, hægt verður að skrifa undir skjöl og pappíra og mögulegt verður að takmarka aðgang að spjallborðum við ákveðna hópa, til dæmis unglinga á aldrinum fjórtán til sextán ára.

Hægt verður að fá kortalesara sem tengist við tölvu á einfaldan hátt. Nú þegar er hægt að fá fartölvur með kortalesara og verður það væntanlega staðalbúnaður í tölvum í framtíðinni.

„Til einföldunar er hægt að setja notkun kortanna í þrjá flokka. Þetta verða debetkort sem stungið er í sérstaka posa og lykilorð slegin inn til staðfestingar á greiðslu. Þetta verða auðkenni til innskráningar á vefi, til dæmis netbanka. Að lokum er þetta rafræn undirskrift. Fólk getur þá sótt um lán í netbankanum og skrifað undir rafrænt með því að setja kortið í lesarann og slá inn lykilorð," segir Vilhjálmur Halldórsson hjá Glitni.

Spurður um kostnað við útgáfu auðkennislykla segist Vilhjálmur ekki hafa þær tölur. „Auðkennislyklarnir voru skref í átt að auknu öryggi. Rafrænu skilríkin eru síðan rökrétt framhald af þeim og hagkvæm lausn sem tryggir öryggi til framtíðar," segir Vilhjálmur.

Visir.is