• Ingólfur Helgason, forstjóri Kaupþings á Íslandi og Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra

Ráðstefnan Nýtum tímann - notum tæknina í Salnum í Kópavogi

8.3.2007

Fyrstu rafrænu skilríkin tekin formlega í notkun - meirihluti almennings og fyrirtækja noti rafræn skilríki á næsta ári

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra og Ingólfur Helgason, forstjóri Kaupþings á Íslandi, tóku í dag í notkun fyrsta rafræna skilríkið hér á landi en rafræn skilríki munu nýtast bæði í viðskiptum og í samskiptum við hið opinbera og ekki síður til að bæta öryggi samskipta á netinu. Athöfnin fór fram að loknu ávarpi fjármálaráðherra á ráðstefnunni „Nýtum tímann – notum tæknina“ í Salnum í Kópavogi. Ráðstefnan er liður í UT-deginum sem forsætisráðuneytið og fjármálaráðuneytið standa fyrir.

Á ráðstefnunni var m.a. fjallað um rafræna stjórnsýslu í Reykjanesbæ, sjálfsafgreiðslu á vef Reykjavíkurborgar, lykilinn að rafrænu Íslandi, rafræn skilríki og rafræn innkaup ríkisins ásamt rafrænum reikningum.

Opnaður var nýr upplýsingavefur um rafræn skilríki, skilriki.is

Fram kom í máli ráðherra að í stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið væri lögð rík áhersla á þróun rafrænnar stjórnsýslu og rafrænna viðskipta. „Rafræn skilríki verða lykill einstaklinga að rafrænu Íslandi og gerir þeim kleift að fylgja málum til enda með rafrænum hætti. Í gær skrifaði ég undir samstarfssamning við fyrirtækið Auðkenni sem staðfestir áframhaldandi samstarf þessara aðila. Markmið þess er að koma á og stuðla að almennri dreifingu og notkun rafrænna skilríkja. Síðar á þessu ári munu bankar og sparisjóðir síðan hefja útgáfu nýrra debetkorta með rafrænum skilríkjum. Reiknað er með að meirihluti almennings og fyrirtækja verði komin með rafræn skilríki á næsta ári.“

Ráðherra sagði ráðuneytið, í samstarfi við SAFT (Samfélag, Fjölskylda og Tækni) og banka og sparisjóði, einnig vinna að nýtingu þessarar tækni til að bæta öryggi barna og unglinga á netinu. Unnið væri að uppsetningu öruggra spjallrása með það að markmiði að útbúa umhverfi þar sem börn geta talað við önnur börn án þess að óæskilegir aðilar reyndu að taka þátt á fölskum forsendum.

Í ávarpi sínu kynnti fjármálaráðherra einnig stefnu ríkisins um rafræn opinber innkaup ásamt markmiðum um innleiðingu rafrænna reikninga hjá ríkinu. Sagði hann að unnið hefði verið að aukinni hagræðingu í innkaupum ríkisins með því að nýta kosti upplýsingatækninnar og möguleika til rafrænna viðskipta. Til dæmis hefði vel tekist til með rafrænt innkaupakort en áætlaður sparnaður ríkissjóðs við þann greiðslumáta næmi árlega allt að 100 milljónum króna. Ráðherra sagði að stefnugerð um rafræn opinber innkaup væri nýlokið. „Markmið stefnunnar er að allar stofnanir ríkisins geti stundað innkaup með rafrænum hætti fyrir árslok 2009. Þá er stefnt að því að geta tekið við rafrænum reikningum frá hverjum þeim aðila sem selur ríkinu vöru eða þjónustu, á næsta ári. Hér er á ferðinni mikið framfaramál er lýtur að því að lækka viðskiptakostnað við innkaup og miðlun viðskiptaupplýsinga. Það er því ekki aðeins hagsmunamál fyrir ríkið og stofnanir þess, heldur einnig sveitarfélög, fyrirtækin og einstaklingana í landinu að rafrænn samskiptamáti viðskiptanna sé samræmdur, einfaldur og skilvirkur.“

Nánari upplýsingar veitir:

Haraldur Sverrisson, skrifstofustjóri rekstrar- og upplýsingaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, í síma 862 0012.