Hátt í sjötíu þúsund rafræn símaskilríki

18.2.2015

Hátt í sjötíu þúsund rafræn skilríki í farsíma hafa verið gefin út síðustu mánuði og símar eru nú orðnir algengasta leið fólks til að nota rafræn skilríki. Heildarfjöldi virkra rafrænna skilríkja er orðinn um 150 þúsund.

Notkun rafrænna skilríkja í síma eykst hratt og sýnir það að notendur taka þessari nýjung vel. Innskráningar með rafrænum skilríkjum í gegnum island.is hafa rúmlega fimmfaldast frá því í haust og mikil aukning hefur einnig orðið hjá öðrum aðilum sem bjóða upp á innskráningu með rafrænum skilríkjum í farsímum. 

Þessi mikli vöxtur í notkun rafrænna skilríkja er í takt við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem fram kemur að áhersla verði lög á að bæta stjórnsýslu og þjónustu ríkisins, m.a. með rafrænni stjórnsýslu og hagnýtingu upplýsingatækni í samskiptum við íbúa. Þá segir í  viljayfirlýsingu sem fjármálaráðherra og stjórnarformaður Samtaka fjármálafyrirtækja undirrituðu í júní í fyrra að stórauka eigi notkun rafrænna skilríkja og stefna að því að þau verði meginauðkenningarleið fólks vegna ýmiss konar rafrænnar þjónustu og viðskipta á netinu.

Sífellt fleiri þjónustuveitendur bætast í hóp þeirra sem nýtt hafa sér kosti rafrænna skilríkja og nú hafa allir bankar og sparisjóðir opnað fyrir innskráningu í heimabanka með rafrænum skilríkjum í farsíma. Þessa dagana gefst Reykvíkingum kostur á að taka þátt í íbúakosningum um betri hverfi og geta þá í fyrsta skipti kosið með rafrænum skilríkjum í farsíma. Þá hefur ríkisskattstjóri boðað að rafræn skilríki muni leysa veflykilinn af hólmi á næstunni. Búast má við að mikil aukning verði í ár á skilum skattframtals með rafrænum skilríkjum enda skilríkin einföld og þægileg í notkun auk þess sem þau tryggja betur öryggi upplýsinga.