• Bjarni Benediktsson var staddur í rútu á ferð um Norðurland þegar hann undirritaði ríkisreikning fyrir árið 2013

Ísland meðal fyrstu ríkja til að undirrita ríkisreikning rafrænt

15.8.2014

Ríkisreikningur fyrir árið 2013 hefur verið birtur. Þau nýmæli urðu í ár að ríkisreikningur var undirritaður rafrænt en Ísland er í hópi fyrstu ríkja til þess að staðfesta ríkisreikning með þeim hætti.  „Þetta er stórt skref í rafrænni stjórnsýslu og í takt við nútímann, þar sem fólk er á ferð og flugi,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

 

Fjármála- og efnahagsráðherra, fjársýslustjóri og ríkisendurskoðandi staðfestu ríkisreikning með rafrænum undirritunum og nýttu til þess rafræn skilríki. Á næstu árum er stefnt að því að stórauka veg rafrænna skilríkja hér á landi og að þau verði meginauðkenningarleið fólks vegna ýmiss konar rafrænnar þjónustu og viðskipta á netinu.

 

Ísland er fyrsta landið sem nýtir rafrænar undirskriftir við undirritun ársreikninga, en undanfarin þrjú ár hafa einkafyrirtæki undirritað ársreikninga með rafrænum hætti. Þá hafa endurskoðendur notað rafræn skilríki í samskiptum við ríkisskattstjóra og tollstjóra um alllangt skeið.

 

Hagræðið sem fæst með því að skrifa undir ársreikning eða önnur gögn með rafrænum hætti er óumdeilt. Það hefur í för með sér tímasparnað og varðveisla gagna er alfarið tryggð.

 

„Með rafrænni undirritun ríkisreiknings hefur stjórnsýslan tekið skref í átt til framtíðar. Rafræn undirritun sparar bæði pappír og fyrirhöfn. Handhafar rafrænna skilríkja geta skrifað undir með þeim hvar sem þeir eru staddir í heiminum,“ benti fjármálaráðherra á þegar reikningurinn var kynntur blaðamönnum í dag.