Sjötíu fyrirtæki samþykkja farsímaskilríkin

9.4.2014

Sjötíu fyrirtæki og stofnanir hafa bæst í hóp þeirra sem bjóða viðskiptavinum sínum að auðkenna sig í gegnum farsímann.

Þetta kemur fram í frétt á vef Símans. Meðal fyrirtækjanna sem nú bjóða þessa þjónustu eru OR, Tryggingastofnun, Rafræn Reykjavík og Vinnumálastofnun. Tugir framhaldsskóla bjóða nú einnig nemendum sínum að auðkenna sig í gegnum farsíma.
Í frétt Símans er haft eftir Þór Jes Þórissyni, stjórnarmanni í Auðkenni og forstöðumanni stefnumótunar Símans að tuttugu þúsund viðskiptavinir Símans hafi réttu SIM-kortin fyrir auðkenninguna. Meirihluti þeirra þurfi að virka þau svo þeir geti nýtt þau í viðskiptum sínum um netið.

„Persónuskilríki í símunum hafa ekki aðeins verði metin öruggasta auðkennið, heldur einfalda þau lífið á netinu þar sem þau gera ólík notenda- og lykilorð óþörf. Aðeins þarf að muna eitt pin-númer sama hvert þjónustan er sótt. Bæði má nota persónuskilríkin í símanum sem auðkenningu og til undirritunar.

Öll ný SIM-kort frá Símanum urðu skilríkjahæf í nóvember – rétt eins og debetkort eru. Af þeim tuttugu þúsund SIM-kort í notkun hafa ríflega þúsund virkjað persónuskilríkin; enda hafa aðeins þrjú fyrirtæki boðið fólki að nýta þau sem persónuskilríki hingað til: Síminn, Ríkisskattstjóri og Auðkenni. Ekki þarf kortalesara, sérstakan hugbúnað eða öpp til að nýta farsímaskilríkin. Aðeins þarf að hafa símann við höndina.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur nefnt skilríkin sem dæmi um umbætur sem geri þjónustu við almenning og atvinnulífið einfaldari og hraðvirkari. Stjórnvöld stefna til að mynda að því að hægt verði að sækja um leiðréttingu lána með þessum hætti.

Hátt í 120 stofnanir og fyrirtæki veita aðgang að þjónustu sinni með rafrænum skilríkjum á debetkortum. Með þessu risaskrefi standa aðeins um fimmtíu eftir,” segir í frétt Símans.


Listi yfir alla sem bjóða þjónustuna