Rafræn skilríki veita mesta netöryggið

3.12.2013

Morgunútvarpið: Hugrún Ösp Reynisdóttir um rafræn skilríki, ruv.is

Leki á gögnum frá Vodafone um helgina vekur upp spurningar um öryggi persónulegra upplýsinga á netinu. Ein öruggasta auðkenningarleiðin sem í boði er eru rafræn skilríki. Hugrún Ösp Reynisdóttir, sérfræðingur í upplýsingatæknimálum í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, sagði frá í Morgunútvarpinu.

Rafræn skilríki hafa verið til á debetkortum frá 2008 og nýlega tók Síminn að bjóða upp á rafræn skilríki í farsímum. Þá hafa stofnanir á borð við stofnanir á borð við Ríkisskattstjóra, Landlæknisembættið og viðskiptabanka  tekið þau í sína þjónustu. Rafræn skilríki hafa ýmsa kosti í för með sér, að sögn Hugrúnar Aspar. Þau geta til að mynda sparað pappír og tíma en síðast en ekki síst eru þau mun öruggari auðkenningarleið en notendanöfnin og lykilorðin sem við notumst við nú.

Með tilkomu rafrænna skilríkja er engin þörf á miðlægum gagnagrunnum þar sem þúsundir lykilorða eru vistuð á einum stað og eru jafnvel berskjölduð fyrir árásum hakkara, eins og gerðist um helgina. Hugrún Ösp sagði rafræn skilríki ekki krefjast mikils tölvulæsis eða hátæknilegs síma. Íslendingar séu aftur á móti aftarlega á merinni í þessum efnum en það gæti þó breyst með aukinni vitundarvakningu um netöryggismál, eftir atburði helgarinnar.

Efni af ruv.is