Persónuskilríki komin í símann

20.11.2013

Fullgild rafræn skilríki hafa verið metin sem öruggasta auðkennið í boði fyrir almenning. Þau gera notenda- og lykilorð óþörf og aðeins þarf að muna eitt pin númer sama hver þjónustan er.
 
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, nefndi farsímaskilríkin nýju á rafrænni notendaráðstefnu Advania á dögunum sem dæmi um umbætur svo þjónusta við almenning og atvinnulífið verði einfaldari og hraðvirkari, segir í fréttatilkynningu frá Símanum.
 
Síminn hefur á síðustu misserum unnið í samstarfi við Auðkenni og viðskiptabankana að innleiðingu á þessum rafrænum skilríkjum fyrir farsíma.
 
Þór Jes Þórisson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Símans, segir í tilkynningunni að með rafrænu SIM-kortunum megi skrá sig inn á þjónustuvef Símans og breyta þjónustu í gegnum netið en áður þurfti að mæta í verslanir til þess.
 
„Skilríkin auka þægindi notenda þar sem þeir geta oftar afgreitt sig sjálfir. Netbankar, tryggingafélög og ríkisstofnanir feta væntanlega fljótlega í fótspor Símans og bjóða sambærilega þjónustu,“ segir hann.
 
Haraldur A. Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkennis, segir róttækar breytingar framundan þar sem skilríki á farsíma sé hægt að nota hvar og hvenær sem er.
 
„Hingað til, hefur notandinn þurft hefðbundna tölvu ásamt hugbúnaði og kortalesara en nú verður breyting þar á. Með rafræn skilríki í farsíma skiptir búnaðurinn litlu máli. Hvort sem þjónustan er sótt í gegnum símann, spjaldtölvuna, fartölvuna eða gömlu góðu borðtölvuna, þá virka skilríkin. Allt sem þarf, er farsími og PIN,“ er haft eftir Haraldi í fréttatilkynningu Símans.
 

Kosið með hjálp símans

Haraldur segir að í framtíðinni verði jafnvel hægt að kjósa með hjálp farsímans. „Þetta er ekki aðeins öruggari leið en þekkist með hefðbundnu notendanafni og lykilorði heldur mun þægilegri þar sem viðskiptavinir þurfa ekki að muna fjölmörg ólík notendanöfn og lykilorð inn á vefi sem notaðir eru sjaldan.“
 
Hátt í 120 stofnanir og fyrirtæki veita aðgang að þjónustu sinni með rafrænum skilríkjum á debetkortum og munu væntanlega á næstu misserum bæta farsímaskilríkjunum við, að sögn Símans. Skilríkin eru lagalega viðurkennd; bæði sem auðkenning og til undirritunar.
 
Til að sækja rafræn skilríki í farsíma þarf að skipta út gömlum SIM-kortum fyrir ný í verslun Símans; fyrst í Kringlunni og fljótlega í öllum verslunum Símans.

Frétt frá viðskiptum mbl.is