Rafræn stjórnsýsla og hagnýting upplýsingatækni

15.11.2013

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, flutti ræðu á Oracle notendaráðstefnu Advania þann 15. nóvember 2013. Í ræðu sinni talaði ráðherrann um nokkur atriði er varða rafræn skilríki og not þeirra.

Bjarni nefndi að rafræn skilríki væru í raun forsenda þess að hið opinbera veiti einstaklingum aðgang að upplýsingum um sig sjálfa og gætu stuðlað að aukinni og bættri þjónustu hins opinbera.

Á meðal þeirra verkefna sem rafræn skilríki verða notuð við á næstu misserum má nefna rafrænar þinglýsingar. Gert er ráð fyrir að eftir um það bil  ár verði unnt að þinglýsa veðskuldabréfum rafrænt. Áætlað er að sparnaður sem hlýst af þinglýsingu rafrænna skjala hjá sýslumannsembættum landsins sé 70 - 80 milljónir á ári og að heildarsparnaður fjármálafyrirtækja geti numið allt að 275 milljónum á ári ef mið er tekið af fjölda veðskuldabréfa undanfarin 10 ár. Auk þess er gert ráð fyrir að meðalafgreiðslutími umsókna hjá Íbúðalánasjóði styttist um tvo þriðju.
---
 Um mitt næsta ár verður fyrirtækjaskrá orðin rafræn sem þýðir að unnt verður að stofna fyrirtæki á netinu og tilkynningar til fyrirtækjaskrár svo sem  vegna stjórnaskipta fari fram með rafrænum hætti og undirritaðar með fullgildum rafrænum skilríkjum. Þá er gert ráð fyrir að rafræn skilríki verði grundvöllur samskipta fjármálafyrirtækja og ríkisskattstjóra vegna neytendalána frá og með nóvember 2014.
---
Embætti landlæknis vinnur nú að því að dánarvottorð verði rafræn og ætti því starfi að ljúka innan fárra mánaða. Lyfseðlar verði jafnframt undirritaðir með rafrænum hætti auk þess sem rafræn skilríki skipta sköpun fyrir rafræna sjúkraskrá. Aðgangur einstaklinga að eigin heilbrigðisupplýsingum og lyfjagagnagrunni verður opnaður með rafrænum hætti í áföngum á næstu árum. Ekki er gert ráð fyrir öðru en að krafist verði notkunar rafrænna skilríkja til að nálgast þessar upplýsingar enda veita þau bestu vörnina gegn netglæpum.

Ráðherra lagði einnig áherslu í ræðu sinni á bætt aðgengi að opinberum gögnum.

Ríkisstjórnin leggur áherslu á aðgengi almennings að gögnum hins opinbera, líkt og fram kemur í stefnuyfirlýsingu hennar frá í vor. Þar segir að einkum sé brýnt að auka og bæta aðgengi að upplýsingum um ráðstöfun almannafjár.

Fyrstu skrefin í opnun fjárhagsupplýsinga ríkisins voru stigin á þessu ári. Starfshópur, sem skipaður var í byrjun ársins, skilaði tillögum í vor en þær lutu að því að birta upplýsingar sem snerta árshluta- og mánaðaruppgjör ríkissjóðs með ítarlegri og aðgengilegri hætti en hingað til.  Mikilvæg grunnvinna hefur verið unnin, ég nefni til dæmis leyfisskilmála, sem eru afar mikilvægir í þessum efnum.

Ráðherra fjallaði einnig um aukna samvirkni upplýsingakerfa og sagði eftirfarandi:

Unnið er að því að koma á samræmdu skipulagi á landsvísu með aukinni samvirkni milli upplýsingakerfa og að mótun landsarkitektúrs í upplýsingatæknimálum sem meðal annars felur í sér að yfirlit verði gert yfir upplýsingatæknikerfi ríkisins til að greina samlegðaráhrif og bæta yfirsýn.

Þessi verkefni eru meðal forsendna þess að við getum hætt að gefa út vottorð og aðrar staðlaðar upplýsingar á pappírsformi. Þess í stað munu notendur veita heimild fyrir að upplýsingar séu sendar rafrænt milli kerfa og spara sér þannig ferðir til opinberra aðila.