Hvetur til aukinnar notkunar rafrænna skilríkja

26.8.2013

Útbreiðsla rafrænna skilríkja hefur aukist undanfarin ár, en þau má bæði nota til auðkenningar og undirskriftar. Embætti ríkisskattstjóra er í hópi þeirra sem hvetja til aukinnar notkunar rafrænna skilríkja.

Í umfjöllun á vef ríkisskattstjóra um rafræn skilríki er hvatt til þess að rafræn skilríki verði í auknum mæli notuð til auðkenningar og þar sem við á, einnig til undirritunar.

Þetta er í samræmi við niðurstöður athugana á fullvissustigi rafrænna auðkenna. Í skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins ADMON eru rafræn skilríki undir Íslandsrót öruggasta rafræna auðkenningin sem í boði er á Íslandi.

Fimm ár eru síðan almenn útgáfa á rafrænum skilríkjum hófst og tæp 90% Íslendinga 15 ára og eldri geta nýtt sér þau.