Hver ert þú?

UT-blaðið 20 .janúar 2006

20.1.2006

Eftir Harald A. Bjarnason, sérfræðing í fjármálaráðuneytinu, og Loga Ragnarsson, framkvæmdastjóra Fjölgreiðslumiðlunar hf.

Rafræn samskipti manna á milli hafa aukist geysilega undanfarin ár og ný boðtæki tekið við af gömlum. Þannig hefur tölvupóstur nær alveg rutt úr vegi hefðbundnum pósti, spjallforrit og spjallrásir miðla skilaboðum milli manna og notkun Internetsíma eykst hröðum skrefum. Almenningur notar netið til að sinna erindum sínum hjá bönkum og stofnunum, fer í rafræna verslunarleiðangra og finnur sér jafnvel maka á Vefnum. Brátt er svo komið að einstaklingar geta sinnt flestöllum erindum heiman að frá sér og sparað þannig mikinn tíma.

Erfitt getur hins vegar reynst að sannreyna hver samskiptaaðilinn er. Hver ert þú og hvernig get ég treyst því að þú sért sá sem þú segist vera? Hvernig get ég treyst því að tölvupósturinn sé ekki falsaður eða að viðmælandinn í spjallinu sé sá sem hann segist vera?

Rafræn samskipti fara fram á raflínum og því er snúið mál að komast að því hver er á hinum endanum. Þegar við hittum einhvern í eigin persónu eru alltaf einhver lífkenni, svo sem andlitsfall eða rödd, sem sannfært geta okkur um að við séum að tala við réttan mann. Ef við þekkjum ekki viðkomandi er hægt að biðja um skilríki og þá er framvísað skírteini eða korti frá útgefanda sem nýtur almenns trausts,til dæmis lögreglustjóra eða banka. Þar er jafnan ljósmynd sem hægt er að bera saman við andlitsfall þess sem framvísar skilríkinu. Lykilatriðið er að við treystum útgefanda skilríkjanna sem staðfestir að myndin sé af viðkomandi. Til að rafræn samskipti geti þróast frekar verður að innleiða kerfi sem almenningur getur notað til að byggja upp traust á þennan sama hátt.

Fjármálaráðherra og Samtök banka og verðbréfafyrirtækja (SBV) hafa undirritað viljayfirlýsingu um að innleiða rafræn skilríki sem almenningur á Íslandi getur notað í samskiptum sínum á Netinu, til að skrifa rafrænt undir skjöl og samninga, o.fl. Unnið er að frekari undirbúningi þar sem gert er ráð fyrir sveitarfélög og aðrir sem hagsmuna hafa að gæta geti komið að verkefninu. Rafræn skilríki svara til hefðbundinna skilríkja og nota má þau líka sem rafræna undirskrift.

Á árinu 2006 byrja íslensku bankarnir að gefa út nýja gerð debetkorta með örgjörva sem m.a. hefur að geyma rafrænt skilríki til að nota í heimilistölvunni og sérstökum kortalesara.

Skilríkin má m.a. nota til að

  • auðkenna sig gagnvart fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum.
  • undirrita alls kyns umsóknir, skuldbindingar, skjöl og tölvupóst.
  • skrifa undir millifærslur í netbönkum.
  • samþykkja rafrænt skjöl og reikninga (rafrænt samþykktarferli).
  • tryggja öryggi fjarvinnu.
  • tryggja öryggi tölvupósts.
  • dulrita samskipti.

Hugmyndin er að atvinnulífið geti einnig nýtt sér rafrænu skilríkin á ýmsan hátt og þannig aukið þjónustu við viðskiptavini sína. Sem dæmi má nefna að í nágrannalöndum okkar hefur verið komið upp öruggum spjallrásum þar sem notkun rafrænna skilríkja minnkar verulega líkurnar á að fólk villi á sér heimildir. Þá hafa opinberir aðilar notað rafræn skilríki til að auka rafræna þjónustu við borgarana.

Íslenska ríkið notar rafræn skilríki nú þegar, svo sem við afgreiðslu tollskýrslna og rafræn skil endurskoðenda á skattskýrslum. Bankar og sparisjóðir hafa einnig verið að prófa sig áfram með þessa tækni í bankaviðskiptum.

Almenn útbreiðsla rafrænna skilríkja felur í sér byltingu í samskiptum á Netinu. Með þeim skapast traust þar sem notendur geta með öruggum hætti auðkennt sig gagnvart öðrum og skrifað rafrænt undir skjöl og skuldbindingar. Samhliða almennri útbreiðslu mun framboð á rafrænum þjónustum margfaldast sem mun skila sér í auknu hagræði fyrir þjónustuveitendur, fyrirtæki og almenning.