Rafrænar undirritanir og ársreikningur á spjaldtölvum

30.4.2012

Hluthafar Auðkennis fengu ársreikning félagsins á nokkuð óvenjulegu sniði á aðalfundi þess.

Í stað þess að fá hann í pappírsformi eins og allajafna tíðkast fengu þeir hann á spjaldtölvum. Enginn pappír var notaður á fundinum en þetta er í fyrsta sinn á Íslandi sem ársreikningur er eingöngu lagður fram með þessum hætti.

„Hluthafar á aðalfundi skoðuðu reikninginn með spjaldtölvum og tóku við varanlegu eintaki ársreikningsins á minniskubbi sem einnig er kortalesari fyrir fullgild rafræn skilríki. Fyrr í vikunni undirritaði Haraldur A. Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkennis ásamt stjórn og endurskoðanda fyrirtækisins, ársreikninginn með rafrænum skilríkjum,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

Fram kemur að tíu manns starfi hjá Auðkenni og að þeir hafi allir undirritað ráðningarsamninga sína við félagið með rafrænum skilríkjum. „Eðli málsins samkvæmt leggjum við ofuráherslu á að allir samningar, tilkynningar eða undirskriftir séu gerðar með rafrænum skilríkjum,“ segir Haraldur. Þannig séu samningar við birgja og undirverktaka að sama skapi undirritaðir með þeim hætti.

Þá samþykkir stjórn Auðkennis fundargerðir og staðfestir með rafrænni undirritun og ennfremur eru tilkynningar til opinberra aðila rafrænt undirritaðar og sendar rafrænt sem og beiðnir um gjaldeyriskaup og fleira.