Rafræn skilríki taka við auðkennislyklum

22.8.2011

Auðkennislyklar eru á útleið og er útlit fyrir að þeir víki að mestu fyrir rafrænum skilríkjum á næsta ári.

Haraldur A. Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkenna, staðfestir þetta og bendir á að lyklarnir hafi verið hugsaðir sem tímabundin lausn.

„Árið 2006 kom upp þörf á því að bæta öryggi við innskráningu í heimabanka og var því ákveðið að taka í notkun auðkennislykla sem tímabundna lausn. Rafrænu skilríkin áttu síðan að taka við hlutverki auðkennislyklanna þegar almennri útbreiðslu skilríkjanna væri náð. Auðkenni fékk heimild frá samkeppnisyfirvöldum til samreksturs auðkennislyklalausnarinnar til ársloka 2011, en þá var áætlað að almennri útbreiðslu væri náð. Dreifing skilríkjanna hefur hins vegar tafist og er ekki víst að almenn útbreiðsla náist fyrr en á næsta ári,“ segir Haraldur en fram kemur á vef Auðkenna að einkaskilríki, svonefnd smartkort, kosti 9.900 kr. á ári með vsk. Haraldur segir þau ótengd bönkum.

Mismunandi er eftir fjármálastofnunum hvað neytendur þurfa að greiða fyrir kortalesara, þ.e. tæki sem lesið getur af rafrænu skilríki og tengja má við tölvu.

Mbl.is 20. ágúst 2011