Rafræn skilríki og rafrænar kosningar

27.1.2011

Rætt var við Valgarð Guðjónsson, tölvunarfræðing, og Harald Bjarnason, verkefnisstjóra í fjármálaráðuneytinu, í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun um rafræn skilríki og rafrænar kosningar.

Í viðtalinu kom fram að handhafar rafrænna skilríkja eru hátt í 60.000 hérlendis og að stefnt er á að 200.000 rafræn skilríki á debetkortum verði komin í umferð í lok þessa árs.

Rafrænu skilríkin bjóða upp á örugga auðkenningu en helsta hindrunin fyrir því að kosningar fari fram með rafrænum hætti hefur verið auðkenning kjósenda. Í Eistlandi hafa rafræn skilríki náð almennri útbreiðslu og hafa eistar oft nýtt sér þau við almennar kosningar í landinu.

Hérlendis var kosið um flugvöll í Vatnsmýrinni með rafrænni kosningu og eins hafa margir þingmanna verið kosnir í prófkjöri rafrænni kosningu. En að öðru leyti hafa rafrænar kosningar ekki viðgengist.

Með rafrænum skilríkjum opnast fyrir þann möguleika að nýta beint lýðræði við ákvarðanatöku með rafrænum kosningum.  

Viðmælendur voru sammála um að fara yrði með varúð og að styðast yrði við hefðbundnar kosningar meðfram rafrænum kosningum, að minnsta kosti til að byrja með.

Einnig þyrfti að byggja upp traust á rafrænum kosningum en viðmælendur voru sammála um að öryggi rafrænna kosninga væri betra ef eitthvað væri en öryggi hefðbundinna kosninga ef rétt væri að staðið.

Í stjórnlagaþingskosningunum var boðið upp á rafrænan kjörseðil á kosning.is þar sem kjósendur gátu stillt upp kjörseðli eftir sínu höfði, prentað hann síðan út og stuðst við í kjörklefanum. Ef um rafræna kosningu hefði verið að ræða hefði kjósandinn sent þennan kjörseðil beint inn til kjörstjórnar og hefði þar með lokið þátttöku sinni í kosningunum.