Þægindi netsamskipta þurfa ekki lengur að vera á kostnað öryggisins

25.1.2011

Íslensk rafræn skilríki byggja á bestu tækni sem þekkt er til að auka öryggi í rafrænum samskiptum.

StelpaÖryggi er vaxandi krafa í netsamskiptum, aukið öryggi skapar betri forsendur fyrir afgreiðslu á vefnum. Handhafar rafrænna skilríkja eru þegar orðnir 55 þúsund. Búist er við því að útbreiðsla og notkun skilríkjanna fari ört vaxandi. Á næstu dögum fer kynningarherferð um gildi og notkun rafrænna skilríkja í loftið. Reikna má með því að umræða og aukinn áhugi fylgi í kjölfarið.

Hvað eru rafræn skilríki?

Rafræn skilríki byggja á bestu tækni sem nú er þekkt til að auka öryggi í rafrænum samskiptum. Með rafrænum skilríkjum er hægt að auðkenna sig og undirrita skjöl rafrænt. Skilríki fyrir rafræna heiminn geta verið á ólíkum miðlum og notuð í ýmsum tilgangi. Handhafar rafrænna skilríkja á Íslandi eru þegar orðnir 55 þúsund. Útbreiddasta notkunin er á debetkortum en rafræn skilríki sem gefin eru út á nýjum debetkortum uppfylla íslenskar og evrópskar lagareglur og eru liður í því að auka öryggi og trúnað í rafrænum samskiptum og viðskiptum.

Fyrir hverja?

Allir hafa hag af því að nota rafræn skilríki, þau létta notendum lífið á margan hátt.
Með rafrænum skilríkjum fækkar lykilorðum sem þarf að muna, þau spara tíma, fé og fyrirhöfn og auðvelda aðgengi að sífellt fjölbreyttari rafrænni þjónustu. Með auknu öryggi er hægt að afgreiða meira á netinu. Þannig sleppur fólk við að ferðast á milli staða og getur afgreitt erindi á þeim stöðum sem hverjum hentar hverju sinni.

Í framtíðinni

Í framtíðinni verður einnig hægt að skrifa undir skjöl og skuldbindingar og kjósa rafrænt. Með þinglýsingu rafrænna veðskjala (rafrænum þinglýsingum) verður afgreiðsluferill lána styttri, þægilegri og mun hagkvæmari. Rafrænar kosningar og atkvæðagreiðslur geta stuðlað að virkara lýðræði og aukið þátttöku almennings í ákvarðanatöku.

Hvar?

Hægt er að nýta kosti rafrænna skilríkja víða, meðal annars við innskráningu í netbanka, íbúagáttir sveitarfélaga og við skil á skattframtali. Fólk er hvatt til að kynna sér þjónustuna á www.skilriki.is eða í bönkum og sparisjóðum.

Hverjir standa að rafrænum skilríkjum?

Auðkenni er útgefandi rafrænna skilríkja en bakhjarlar verkefnisins eru
íslenska ríkið og samtök fjármálafyrirtækja. Eigendur Auðkennis eru Arion banki, Íslandsbanki, Landsbankinn, Síminn og Teris.

Frekari upplýsingar veita: