Rafræn skilríki breyta miklu

24.1.2011

Örgjörvi í debetkortum gerir þau að rafrænum skilríkjum. Mynd RÚV.Rafræn skilríki í formi debetkorta með örgjörva eiga eftir að spara mörgum sporin við að sækja sér þjónustu. Þau geta jafngilt undirskrift og eru í raun vegabréf á netinu.

Barningurinn við að muna öll notendanöfnin og lykilorðin og passa upp á að auðkennislykillinn týnist ekki heyrir nú sögunni til. Nú þegar eru mörg þúsund debertkort með örgjörva í umferð en þau eru rafræn skilríki og nýtast ekki bara til þess að taka út af bankareikningnum.

Fjármálaráðuneytið hefur unnið lengi að innleiðingu rafrænna skilríkja í samvinnu banka. Hægt er að nota þetta í samskiptum ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja.

Hægt er að nota rafræna skilríkið til að skrifa rafrænt undir og það jafngildir hefðbundinni undirskrift. Verið er að vinna að því með sýslumönnum að gera kleift að þinglýsa rafrænt og í framtíðinni á að vera hægt að skrifa undir lán rafrænt.

Auk þess að fara í bankann og skattinn á einu lykilorði má sinna fjölmörgu öðru eins og að fara inn á háskólann á skilríkinu, panta tíma hjá heimilislækni á netinu og sinna erindum í Eistlandi því skilríkið er gilt í Evrópuríkjum.

Persónuvernd er mikil sem gerir það að verkum að aðeins flóknara er að ná í þetta debetkort með örgjörvanum en venjulegt debetkort. Allar upplýsingar um skilríkið og uppsetningu búnaðar eru á www.skilriki.is.

frettir@ruv.is 23. janúar 2011