• Fartalva

Fá nafnskírteinin nýtt hlutverk?

10.11.2008

Ein af þeim lausnum sem til umræðu eru til að veita börnum rafræna auðkennislyka til notkunar á netinu er að taka gömlu nafnskírteinin í notkun í nýju formi.

Notkun félagsnetsvefja svo sem Myspace og Facebook eykst mjög svo og félagssamskiptaforrita eins og MSN, og samtvinningur á þessum formum. Verkefni SAFT, stefnumót um netnotkun og börn, hefur verið að kortleggja notkun barna og segir Guðbergur K. Jónsson verkefnisstjóri að hún aukist með ógnarhraða.

Foreldrar hafa áhyggjur af misnotkun vefjanna og þar með öryggi barna sinna. Vísar hann meðal annars til klámeineltis en um þannig mál hefur verið fjallað hér í blaðinu að undanförnu. Samtökin hafa látið gera kannanir á netnotkun barna og verður næsta könnun gerð í upphafi næsta árs.

Unnið hefur verið að innleiðingu rafrænna skilríkja sem meðal annars er hægt að nota til innskráningar í heimabanka og til að sækja um þjónustu sveitarfélaga. Þau verða aðgengileg í debetkortum og þess vegna meira hugsuð fyrir fullorðna. Þá er unnið að samhæfingu á vegum Evrópusambandsins og er málið á dagskrá þar 2008 til 2010.

Guðbergur segir að til umræðu hafi komið að leysa málið fyrir börnin með því að nýta gömlu nafnskírteinin, gefa út rafræna aðgangslykla í staðinn fyrir nafnskírteinin. Hann telur að enn séu prentuð nafnskírteini fyrir öll þrettán ára börn og þau liggi hjá sýslumanni, hvort sem börnin nýti þau eða ekki. Ef það væri fær leið ætti að vera hægt að koma þeim í notkun innan þess tímaramma sem ESB hefði sett.

Guðbergur segir að börnin séu mest á netinu heima hjá sér. Því vilji hann brýna fyrir foreldrum að setja sig inn í hlutina. „Þetta er ekki aukaheimur barnanna heldur hluti af tilveru þeirra. Foreldrarnir verða að leggja þetta á sig, hvort sem þeim líkar betur eða verr, og bæta þessu við umferðarkennsluna og kennslu í almennu siðferði.“

Frétt af mbl.is