Hægt að stofna til bankaviðskipta á netinu með rafrænum skilríkjum

19.8.2016

Eigendur rafrænna skilríkja sem hyggjast stofna til viðskipta við Arion banka geta nú gert það í gegnum netið á nokkrum mínútum með því að nýta skilríkin sín. 
Þetta er í fyrsta sinn sem í boði er að stofna til viðskipta í íslenskum banka án þess að mæta í útibú. Í tilkynningu Arion banka segir að þessi leið spari viðskiptavinum tíma og fyrirhöfn og sé í takt við áherslur bankans í umhverfismálum á aukna hlutdeild pappírslausra viðskipta. 
„Með þessari nýju rafrænu leið er hægt að stofna til viðskipta og velja á milli helstu þjónustuleiða bankans, eins og veltureikninga, debetkorta, sparnaðarreikninga og kreditkorta. Aðgangur að netbanka stofnast sjálfkrafa sem og aðgangur að Arion banka appinu, fyrir þá sem sækja sér appið.  Allir þeir sem eiga rafræn skilríki, hafa náð 16 ára aldri og eru búsettir á Íslandi geta farið inn á vef Arion banka og stofnað til viðskipta við bankann með þessum hætti. Þeir sem hins vegar uppfylla ekki framangreind skilyrði þurfa nú sem fyrr að koma í útibú bankans og stofna þar til viðskipta, en búið er að einfalda og stytta það ferli til mikilla muna," segir í tilkynningu bankans.