Þjónustuveitendur
Atvinnulífið getur bæði notfært sér rafræn skilríki til að sinna erindum sínum við hið opinbera með skilvirkum hætti og – með því að taka upp umhverfi sem gerir ráð fyrir rafrænum skilríkjum í viðskiptum – bætt þjónustu við viðskiptavini sína verulega.
Með öruggu auðkenni þeirra sem nota skilríkin má opna fyrir persónulegar upplýsingar svo sem um reikninga viðkomandi hjá fyrirtækinu, netverslun verður auðveldari og milliliðalaus og samningar milli viðskiptavina og fyrirtækja má undirrita rafrænt.
Á þessu svæði síðunnar verður að finna upplýsingar um virkni rafrænna skilríkja og hvernig setja má upp búnað þeim tengdum.
Íslenska ríkið notar rafræn skilríki nú þegar svo sem við afgreiðslu tollskýrslna og rafræn skil endurskoðenda á skattskýrslum. Bankar og sparisjóðir hafa einnig verið að prófa sig áfram með þessa tækni í bankaviðskiptum.
Með endurútgáfu debetkorta banka og aðkomu fleiri fyrirtækja mun útbreiðsla rafrænna skilríkja verða almenn. Það felur í sér byltingu í samskiptum á netinu.
Með þeim skapast traust þar sem notendur geta með öruggum hætti auðkennt sig og skrifað rafrænt undir skjöl og skuldbindingar sem og endurnýjað ýmis réttindi sín. Samhliða almennri útbreiðslu mun framboð á rafrænum þjónustum margfaldast sem mun skila sér í auknu hagræði fyrir þjónustuveitendur, fyrirtæki og almenning.