Spurt og svarað um rafræn skilríki
Hvað eru rafræn skilríki?
Rafræn skilríki eru persónuskilríki sem notuð eru í rafrænum heimi. Það að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum á netinu jafngildir því að framvísa persónuskilríkjum. Rafræn skilríki er hægt að nota til fullgildrar undirritunar og jafngildir hún eigin undirritun.
Hvar fæ ég rafræn skilríki?
Í bönkum, sparisjóðum og hjá Auðkenni. Hægt er að fá rafræn skilríki í síma og á snjallkort. Ef þú ætlar að útvega rafræn skilríki á síma kannarðu hvort símkortið þitt styður rafræn skilríki. Ef ekki getur þú útvegað slíkt kort hjá þínu símafyrirtæki. Þú ferð svo í banka, sparisjóð eða til Auðkennis og færð rafræn skilríki þar. Þegar sótt er um rafræn skilríki þarf ávallt að hafa með gilt ökuskírteini, vegabréf eða nafnskírteini með mynd.
Hvað get ég gert með rafrænum skilríkjum?
Þú getur notað skilríkin til auðkenningar og fullgildrar undirritunar. Nú þegar bjóða flestar opinberar stofnanir og sveitarfélög upp á innskráningu á þjónustusíður með rafrænum skilríkjum, sem og allir bankar, sparisjóðir og fleiri.
Þarf ég að muna enn eitt PIN númer?
Þú þarft að velja þér eitt PIN númer. Alltaf þegar þú notar rafrænu skilríkin nýtist þetta PIN númer þér. Það er því sama PIN númer fyrir allar þjónustusíður sem bjóða upp á innskráningu með rafrænum skilríkjum. Þannig fækkar til muna þeim PIN númerum sem þú þarft að muna.
Get ég fengið rafræn skilríki í símann?
Já, hægt er að setja rafræn skilríki í nær allar tegundir farsíma. Vakin er athygli á því að ekki þarf snjallsíma til að geta fengið rafræn skilríki í símann.
Hverjir eru helstu kostir rafrænna skilríkja?
Þau auka öryggi. Þau eru þægileg. Þú þarft bara að muna eitt PIN númer í stað margra og þau opna þér aðgang að fjölmörgum þjónustusíðum. Þar að auki getur þú notað þau til fullgildrar undirritunar.
Eru rafræn skilríki örugg?
Rafræn skilríki hafa verið metin öruggasta auðkenningin sem í boði er fyrir almenning, samkvæmt nýlegri úttekt. Öryggið er m.a. fólgið í því að lykilorðið er hvergi geymt miðlægt.
Gefur ríkið út rafræn skilríki?
Rafræn skilríki byggja á svokallaðri Íslandsrót sem er í eigu og umsjá ríkisins. Ríkið gefur ekki út skilríki til einstaklinga, en setur ströng skilyrði um útgáfuna. Aðilar sem gefa út eða hyggjast gefa út skilríki til einstaklinga á Íslandi eru undir opinberu eftirliti Neytendastofu. Með ströngum kröfum og eign sinni á Íslandsrót hefur ríkið fulla stjórn á umhverfi skilríkjanna og ber ábyrgð á þeirri grunngerð sem þau eru byggð á.