Rafræn skilríki á kortum

Rafræn skilríki á kortum hafa verið í boði á Íslandi frá árinu 2008.  Hægt er að fá þau á einkaskilríki en það eru kort sem nýtast eingöngu fyrir rafræn skilríki. Þeir sem eiga debetkort með rafrænum skilríkjum í örgjörva kortsins geta einnig haft samband við sína bankastofnun og kannað möguleika á að virkja þau. 

Kortalesari

Til að nota rafræn skilríki á kortum þarf kortalesara sem tengdur er við þá tölvu sem nota á rafræna skilríkið á. Kortalesarinn tengir kortið við tölvuna. Flest útibú bankanna útvega lesara gegn vægu gjaldi. Einnig þarf að setja upp hugbúnað en  upplýsingar um hann er að finna á vef Auðkennis.

Í sumum nýrri fartölvum eru þessir lesarar innbyggðir og einnig eru til sölu í mörgum verslunum lyklaborð með innbyggðum kortalesurum sem er þægileg lausn. Einfalt er að tengja lesara við tölvu með USB snúru. Rafræn skilríki

Hvernig útvega ég einkaskilríki með rafrænum skilríkjum?

Hægt er að  sækja um rafræn skilríki á einkaskilríki á umsóknarvef Auðkennis. Einkaskilríkin eru gefin út sérstaklega í þessum tilgangi og nýtast ekki til annars. Þú tilgreinir þinn banka eða sparisjóð og þangað sækir þú svo skilríkin þegar þau eru tilbúin.  Nokkrum dögum síðar færðu svokallað PUK-númer sent heim.

Hvernig virkja ég rafræn skilríki á korti?

Þegar skilríkin eru tilbúin færðu tilkynningu þess efnis og mætir þá í bankaútibúið til að sækja skilríkin og undirrita samning vegna þeirra.  Þú þarft að hafa meðferðis PUK-númerið, gilt skilríki (vegabréf, ökuskírteini eða nafnskírteini, debetkort er ekki fullnægjandi) til að virkja skilríkið. Þú velur jafnframt eitt 4-8 stafa PIN númer til að nota á skilríkjunum og gott er að vera búin/n að ákveða númerið þegar þú mætir á afgreiðslustað. 

Hvar virkja ég skilríkin?

Skráningarstöðvar rafrænna skilríkja eru víða um land hjá bönkum, sparisjóðum og hjá Auðkenni.  Hér má sjá hvar skráningarstöðvar eru.

Rafræn skilríki fyrir yngri en 18 ára

Eintaklingar undir 18 ára aldri geta fengið rafræn skilríki hvort sem er á farsíma eða á korti.

Umsækjandi þarf í viðurvist foreldra eða forsjáraðila að framvísa þarf gildu skilríki (vegabréf, ökuskírteini, nafnskírteini gefið út af sýslumanni) og skrifa undir samning í tengslum við ný skilríki.  Foreldri eða forráðamaður þarf jafnframt að framvísa skilríki (vegabréf, ökuskírteini, nafnskírteini gefið út af sýslumanni) og skrifa undir með umsækjandanum.

Hvað næst?

Skilríkin eru til reiðu og hægt er að nýta þau hjá mörgum þjónustuaðilum. Til að nota rafræn skilríki á kortum þarf lesara sem les kort og tengir þau við tölvuna. Flest útibú bankanna útvega lesara gegn vægu gjaldi. Einnig þarf að setja upp hugbúnað en upplýsingar um hann er að finna á vef Auðkennis.  Athugaðu að við innskráningu (auðkenningu) notar þú einungis fyrstu fjóra tölustafina í PIN-númerinu sem þú valdir en við undirritun notarðu alla sex tölustafina.

Ef þú ert búin/n að útvega kortalesara og setja upp hugbúnað til þess að nýta rafræn skilríki á korti, geturðu farið inn á síðu Auðkennis ( https://ra.audkenni.is/), valið innskráningu efst í hægra horni og þar er hægt að prófa skilríkin.